Donnerstag, 16. August 2007

Vonlaus...

Ég er vonlaus bloggari. Ójá. Það fyndna er að ég hafði áhyggjur af því að verða svona eitt blogg í viku týpa en er svo bara nær því að vera eitt blogg á mánuði, nú eða ársfjórðungi.

Svo skulda ég nú svo mikið af skemmtilegum sögum að ég hef viljandi forðast þessa síðu eins og frítt áfengi. Nei ekki góð samlíking.

Nú er þó komið að skuldadögum og þó fyrr hefði verið! Ég geri þetta í pörtum bara. Á morgun kannski.

Sonntag, 8. Juli 2007

Mun hressilegri færsla

Elsku bestu Siggu og Benna fæddist undursamlegur lítill tónelskur þjóðhöfðingi þann 3. júlí.

Til hamingju ástirnar mínar og ég get ekki beðið eftir að sjá ykkur litlu fjölskylduna.

Ó Ó og Æ mig auma.

Er búin að vera sárlasin frá því á föstudagsmorgun. Upp og niður, you see, aðallega niður samt. Obb obb obb.

Þurfti að ganga þrautargöngu útí búð þar sem að ég var búin með klósettpappírinn og skil ég nú ésú á krossinum mun betur en áður. Skítt.

Er því búin að eyða helginni á hlaupum milli klósetts og svefnherbergis. Viljiði meiri upplýsingar?

Nú jæja þá. Hef ekkert getað borðað nema einstaka súkkulaðibita og er það ekki jafn glamúrös og það hljómaði í barnæsku . Þá ætlaði ég nú, eins og fleiri væntanlega, að borða súkkulaði í öll mál en hef nú skipt um skoðun.

Svo vorkenndi ég sjálfri mér svo mikið að ég lét hana mömmu mína hringja í mig til þess að vorkenna mér. Það er svo leiðinlegt að vera alveg ein um það að vorkenna sjálfum sér og best er þegar mammasín tekur þátt. Er mikið skárri í dag en líður þó enn eins og rúta hafi keyrt yfir mig. Ekki mjög hressilegt, þannig að vorkunn, miskunn og forkunn er velkomin í kommentum.

Nú ætla ég þó að sinna heimilisstörfum þeim er setið hafa á hakanum í veikindum.

Vonandi verður næsta blogg hressilegra en ykkur er velkomið að fara með þessa færslu ef ykkur vantar skemmtiatriði fyrir brúðkaup eða ættarmót. Gæti verið full gróft fyrir skírnarveislu en ég treysti ykkur til þess að taka þá ákvörðun.

Love and skitz

Samstag, 30. Juni 2007

tjútt, tjútt, tralala

Fyrst á réttunni og svo á röngunni. Þannig var gærkvöldið, þrususkemmtilegt.

Fór í stuðlegt Íslendingapartí hjá akureyringum nokkrum og var það alveg bráðskemmtilegt. Eins og sannir Íslendingar í útlöndum drukkum við nokkur Brennivínsskot. Það myndum við nú aldrei drekka heima hjá okkur. Verst að ekki hvorki var til ákavíti né saltstangir þannig að ógeðiskokteillinn var ekki á boðstólum. Enduðum á að fara á Felixx og svo karókíbarinn þar sem teknir voru nokkrir slagarar. Ekkert nýtt af nálinni undir sólinni.

Í dag fór ég í voða fansí kaffiboð hjá aðalræðismanni Íslands hér í Vínarborg og var það flott og fínt. Boðið var haldið í Lusthaus í garðinum Prater. Þar er tívolí sem Brónagh ætlar að eiga heima í og jafnframt get ég hresst uppá borðtennis hæfileika mína.

Í kvöld er ég að fara að hitta norska hressa stelpu sem heitir Gunnhild og erum við jafnvel að spá í að dansa svolítið. Það gæti nú verið stuðlegt.

Óver and át

Sonntag, 24. Juni 2007

Helgi og unaður

MMMM munið að borga afnotagjöldin.

Matarboðið var hreint út sagt unaðslegt. Baddý og Cristoph búa í svaka fansí penthouse íbúð í hjarta borgarinnar og eru með 60 fermetra verönd. Ú la la. Nú ekki nóg með það heldur eiga þau svakalegasta grill sem ég hef nokkurn tímann séð. Þetta er svona risa teinn sem að snýst yfir eldi og er þar hægt að grilla heilu svínsskrokkana. Nú eða sebrahesta og óþekka krakka. Í þetta skipti voru kjúklingar fórnarlömbin og kann ég kjúklingunum góðar þakkir fyrir fórnina. Þetta geta þeir.

Annars er ég bara búin að lufsast þessa helgi. Fór á markað með Palla og keyptum við ávexti í tonnavís. Við ætlum nefnilega að vera í hollustunni í framtíðinni. Ó já. Á markaðnum kenndi ýmissa grasa og er þar hægt að kaupa allan fjandann á slikk og sleikjó. mmmm.

Svo hékk ég heima á laugardagskvöldið og afþakkaði meðal annars tvö partýboð og ferð á karókíbarinn. Þess í stað horfði ég á nokkra Ugly Betty þætti og svo ANTM. Það er ekki það sama að horfa ein á ANTM, einhvern veginn verð ég að hafa Eoghan með mér til þess að gera gys að stelpulufsunum. Oh ég sakna Eoghan og Brónu mikið mikið. Og ykkar hinna líka, auðvitað.

Nú ætla ég að koma mér útúr húsi og fara að halda áfram að lufsast um borgina. Lufsur allra landa sameinist

Freitag, 22. Juni 2007

Bloggi bloggi

Gvu eins gott að blogga núna svo ég verði nú ekki svona *eitt blogg í viku* týpan. Hér er allt hresst og meiraðsegja svo hresst að hann Alf Pojer júróvisjon fari með meiru verður með tónleika í kvöld. Veit ekki aaalveg hvort ég mæti.

Annars er frumflutningi á Ein bisshen Frieden lokið og ætlaði þakið að rifna af búllunni. Á karókí-staðnum hér er mikið um hornkellingar* af báðum kynjum.

Í kvöld ætla ég að fara í matarboð til Baddý og kærasta en Baddý er einmitt stúlkan sem skrifað er um hér fyrir neðan. Þau búa rétt hjá karókí staðnum þannig að ég veit ekki hvernig þetta fer allt saman. Um helgina er svaka festival á eyju sem heitir Donau-insel og hver veit nema ég sýni á mér loðna, hvíta leggina.

Auf wiedersehen


*Hornkellingar eru karókísjúklingar sem að syngja alltaf sama lagið, rooosalega vel og horfa svo sjálfsánægðir í kringum sig.

Samstag, 16. Juni 2007

Helgarfríí og karókíí

Nú er ég loksins búin að prufukeyra karókíið hér í Vín og er það með mestum ágætum. Stór hluti laganna eru þó einhverjir austurrískir slagarar sem að eru örugglega svona innlendir Mannakorn og Gylfi Ægis. Ég hef að mestu haldið mig frá þeim lögum. Stefnan er þó tekin á að taka Ein bishen Frieden einhvern góðan veðurdag.

Veðrið er rosalega gott og fínt. Ég er þó enn fölblá á lit en vonandi breytist það með tímanum. Kannski ég hætti að maka á mig SPF 20 ef það á að takast. Á morgun er náttúrulega 17. júní og ég er búin að prenta út textann við hæ hó jibbí jæ. Í 10 eintökum ef að ég hitti einhverja sem vilja syngja með. Íslendingafélagið hér er með eitthvað gill og aldrei að vita nema ég skelli mér.

Talandi um Íslendinga. Við Palli vorum hér á göngu að ræða lífið eins og það leggur sig þegar ung stúlka kemur hlaupandi á eftir okkur. Það tók okkur smá stund að átta okkur á því að hún var að kalla: afsakið afsakið sem er náttúrulega íslenska (er búin að vera svo lengi erlendis, búin að gleyma tungumálinu, textanum við hæ hó jibbí jæ og byrjuð að jacka alveg á fullu). Hún er nýflutt til Vínar og verður gaman að kynnast henni.

Jæja, nú ætla ég að sturta mig en ætla mér útúr húsi í kvöld. Gvuð einn veit uppá hverju ég tek. Er að fara að hitta norska stelpu sem heitir Gunnhild og Palla kollega. (Blessaður kollegi). Það er eitthvað seventís og eitís ball sem gæti verið hressilegt. Ætla að reyna að forðast barinn þar sem að við Palli gáfum barþjónunum rósir. Þeir halda nefnilega að við séum eitthvað biluð.

Tjaó

Mittwoch, 13. Juni 2007

Glæpakvendi

Hér hef ég nú þegar framið nokkra alvarlega glæpi. Þrátt fyrir að vera ekki með friðhelgi diplómata eða neitt slíkt. Ég er miður mín. Kemur hér upptalning á alvarlegum yfirsjónum mínum.

1. Fékk mér kaffi á Starbucks. Ekki gott hvorki á bragðið né fyrir hugsjónirnar. Sjón/menningarmengun hin mesta.

2. Fór á McDonalds. Ó Ó Ó hugsjónir mæ ess. Mér til málsbóta að þá fékk ég mér bara salat... og það var ekkert annað opið.... og... nei þetta er ekki að virka.

3. Sjitt ég get varla sagt frá þessu. Er alvarlega að spá í að kaupa mér gervi-crocks skó á 7 evrur. Kræst. Crocks er slæmt og gervi crocks þá væntanlega verri. Þeir eru rósóttir. Gera ógeðslega margir mínusar ekki örugglega plús?

Sonntag, 10. Juni 2007

Hressileg

Já já. Mjög hressileg.

Nú er ég í Vín og það er nú aldeilis hressilegt. Í dag er sunnudagur og þá er barasta eiginlega allt lokað. Já ég meina það, en lúðalegt. Fyrir utan hvað það er forkastanlegt að ætlast til þess að venjulegt fólk geti hugsað og framkvæmt fram í tímann. Hvað yrði um Ísland ef að Smáralind og Kringlan væru lokuð á sunnudögum? Bylting borgaranna? Við höfum svo gaman af því að borga.

Ég ætlaði að sóla fölbláan kropp minn í dag. Nema að það var haglél. Jú víst. 25°c og haglél, þetta hlýtur að vera merki um að við séum stödd á highway to hell í boði global warming. Þannig að þess í stað náði ég að svindla mér inn á þráðlaust net hjá einhverjum öreiganum og nýti mér það til fullnustu í haglinu.

Hér er ég búin að vera í 6 daga og búin að villast ansi oft. Rýmisskynjun mín er ansi slök og einskorðast greinilega ekki við að þekkja varla muninn á hægri og vinstri heldur verð ég til dæmis alltaf að nota sama uppganginn úr neðanjarðarlestinni því annars gæti ég allt eins verið í annarri borg og veit ekkert hvar ég er.
Ég bý í herbergi rétt við stóra verslunargötu sem heitir Mariahilfenstrasse og þar má finna góða félaga á borð við H&M, Body Shop, McDonalds og KFC. Ég fór á KFC og má sá kjúklingur skammast sín. Ojojoj. Ekki hamingjusamur kjúklingur og ekki náðu 11 kryddtegundir ofurstans að dylja óhamingjusama ævi kjúllans. H&M stóðu hins vegar algjörlega fyrir sínu.

Noh! og ég er líka búin að finna hressilegan karókíbar til þess að stytta mér stundir. Hef ekki enn sungið en þess er vart langt að bíða. Annars er vart þverfótað fyrir börum og knæpum hérna, mætti halda að þeim falli vel sopinn Austurríkismönnum, konum og börnum. Fór á bar með hinum íslenska starfsnemanum hérna og við drukkum mikið. Svo er það jú.

Hress í bili (oj hvað ég er hallærisleg)